141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spyr um tillögur okkar framsóknarmanna um afnám verðtryggingar. Þingmaðurinn virðist ekki hafa lesið þau frumvörp sem við höfum lagt fram í þinginu. Það á hann að vísu sameiginlegt með fleiri félögum sínum í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ekki virðist hafa verið mikill áhugi á að kynna sér þær tillögur sem við leggjum þar fram. Þar eru fjölmargar tillögur um það hvernig hægt sé að taka skref varðandi afnám verðtryggingar.

Það kom síðan mjög skýrt fram í ályktunum flokksþings um síðustu helgi að framsóknarmenn eru sammála þessum áherslum þingflokks framsóknarmanna og vilja taka skrefið alla leið og afnema verðtryggingu neytendalána. Ýmsir hafa svo sem líka sett putta á lyklaborð undanfarna daga og fjallað um verðtrygginguna. Ég bendi á mjög áhugaverða grein, eina af mörgum sem Ólafur Margeirsson hefur skrifað um leiðir til að afnema verðtrygginguna. Ég held að það sé orðið löngu tímabært að stjórnarliðar kynni sér þær hugmyndir. Í grein Ólafs kemur fram að afnám verðtryggingar er hluti af því að ná þeim stöðugleika sem þingmaðurinn talaði um. Með því að afnema verðtrygginguna tryggjum við að stýritæki Seðlabankans virki. Þau hafa ekki virkað hingað til og það hefur bankinn sjálfur viðurkennt.

Það er líka ástæða til að benda á frumvarp sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram í 35 greinum þar sem þau benda á að það þarf að kippa út vísitölu neysluverðs í þeirri lagasetningu sem hefur verið samþykkt hér árum og áratugum saman. Það er orðinn svo stór hluti af hugsunarhættinum á Íslandi að allt þurfi að vera tengt við vísitöluna þannig að við þurfum að hætta þessu ef við eigum að ná því fram sem við erum öll sammála um, að tryggja stöðugleika og ná tökum á verðbólgunni (Forseti hringir.) á Íslandi. Lykilforsenda til þess að ná því er að afnema verðtrygginguna.