141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að beina fyrirspurn til hv. þingmanns út af 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Í greininni kemur fram að í reglugerð sé heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem staðsettar eru á tilteknum landsvæðum. Hversu mikinn hluta telur hv. þingmaður að hér sé átt við? Ég hef áhuga á að vita hvað átt er við hér og hvernig framtíðarsýnin verður. Og í framhaldi af því: Hvaða áhrif mun þessi breyting og þessar ráðstöfunarheimildir til ráðherra hafa á sterkar sjávarútvegsbyggðir eins og Grindavík og Vestmannaeyjar? Hvaða þýðingu mun þetta hafa?

Síðan er í 2. mgr. sömu greinar fjallað um það að þær tekjur sem aflað er við ráðstöfun aflamarks samkvæmt þeirri grein skuli renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Úr þessum sjóði á að úthluta samkvæmt reglum sem ráðherra setur, ríkið á að fá 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður tengdur sjávarútvegi 20%. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvert þessi 40% sem renna eiga til sveitarfélaga eigi að fara? Eiga þau að fara til allra sveitarfélaga landsins eða til sveitarfélaga þar sem stundaður er sjávarútvegur? Hvað er átt við hér og hvernig sér hv. þingmaður þetta allt saman fyrir sér í framkvæmd?