141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar ræðu. Mig langar að ræða aðeins betur við hana um nokkuð sem hún fullyrti í sínu máli, þ.e. að Evrópusambandið væri mjög að horfa til Íslands og þess kvótakerfis sem nú er við lýði varðandi sína fiskveiðistefnu. Þetta held ég að sé mýta sem hver endurtekur eftir öðrum samt sem áður.

En í fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, sem er undir stöðugri endurskoðun og er verið að endurskoða núna, í þeim punktum sem fram hafa komið í þeirri stefnu, er eitt af því sem sambandið hefur verulegan áhuga á að breyta er úthlutun aflaheimilda og miða til dæmis við 15 ára úthlutunartíma líkt og verið er að leggja til í þessu umdeilda frumvarpi. Þar hefur líka verið sett fram sú stefna að líta á fiskveiðiauðlindina sem sameiginlega auðlind á svæðinu öllu sem sameiginlega arfleifð sem eigi að nýtast til sameiginlegra hagsbóta fyrir samfélög á þessum svæðum — jafna aðgengi að miðunum hjá aðildarlöndunum og markmiðið það sama og landbúnaðarstefnunnar, þ.e. að auka framleiðni og tryggja starfsfólki í greininni sanngjörn lífskjör. Þar kemur einnig mjög skýrt fram að mikilvægi sjávarútvegsins felist ekki aðeins í arðsemi innan greinarinnar heldur líka í líffræðilegum, hagfræðilegum og félagslegum þáttum. Þetta var ég nú bara að lesa núna á heimasíðu sambandsins á meðan þingmaðurinn talaði.

Mér þætti fróðlegt að vita hverju þingmaðurinn svarar því á hvern hátt hún telur (Forseti hringir.) að Evrópusambandið sé að horfa til núverandi kvótakerfis í ljósi þeirra stefnumiða sem (Forseti hringir.) sambandið hefur sjálft kynnt opinberlega.