141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Þeir sem helst hafa notað þessar röksemdir í umræðunni, um að Evrópusambandið sé nú að líta til þess að taka upp okkar fiskveiðistjórnarkerfi, eru þeir sem eru að reyna að sannfæra fólk sem hefur atvinnu og hagsmuni af því að sjávarútvegurinn gangi vel um að Evrópusambandið sé á leiðinni í þessa átt. Þannig hefur verið talað á fundum í mínu kjördæmi. Það er einfaldlega þannig.

Nú er það upplýst af helsta talsmanni Samfylkingarinnar, af Evrópusinna hér í þinginu, helsta talsmanni Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, að þetta er ekki rétt. Það er gott að það innlegg er komið inn í umræðuna. Ég fullvissa hér með alla þá sem eru á móti því að við göngum í Evrópusambandið um að það er ekki rétt að Evrópusambandið sé að reyna að nálgast okkur í fiskveiðistjórnarmálum. Þá er það hér með upplýst og það er fínt.