141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

möguleg kaup lífeyrissjóðanna á Íslandsbanka.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ráðherra er kannski ekki með beina aðild að því máli sem ég ætla að spyrja um en mig langar að vita hvort ráðherrann deilir áhyggjum mínum.

Við sjáum í fjölmiðlum að komnar eru upp viðræður um sölu á Íslandsbanka og að meðal líklegra kaupenda sé Framtakssjóður Íslands sem er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Við vitum ekki hverjir eru eigendur að Íslandsbanka ofan í hverja kennitölu og þá velti ég fyrir mér að ef lífeyrissjóðirnir eignast bankann hvort það muni vefjast fyrir þeim stjórnvöldum er nú sitja að skattleggja söluhagnaðinn eitthvað sérstaklega, þ.e. söluhagnaðinn þegar bankinn verður seldur, eða þá að breyta um takt varðandi skatta á banka ef það eru lífeyrissjóðirnir sem munu eiga hann í framhaldinu.

Það er mjög mikilvægt að við reynum að ná einhverjum aurum frá þeim sem eiga bankana í dag og gömlu föllnu bankana til að lækka skuldir heimilanna. Það er ákveðið svigrúm til þess með einhvers konar skattheimtu eða með því að skattleggja þá þegar þeir ætla til dæmis að fara með söluhagnaðinn út úr landinu, eitthvað svoleiðis. Ég er sem sagt að leita eftir því við hæstv. forsætisráðherra hvort ráðherrann deili þeim áhyggjum með mér að ef lífeyrissjóðirnir eignast aftur fjármálastofnanir í landinu muni þrengja um leiðir til að koma til móts við skuldug heimili. Lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög fastir fyrir og ekki talið sig geta lagt mikið í það púkk, hvort sem við erum sammála því eða ekki.

Ég geri mér grein fyrir að ráðherrar geta ekki gripið inn í þetta, en mig langar að kalla eftir því hvort hæstv. ráðherra deili þessum áhyggjum mínum.