141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég skal vinda mér strax í að svara spurningu hv. þingmanns um hvort áður hafi verið gripið inn í lögreglurannsókn hér á landi. Það var ekki gert í þessu tilviki, það var ekki gripið inn í rannsóknina. Málið lýtur að réttarbeiðni og að því að farið sé að íslenskum lögum og þeim reglum sem við höfum sett okkur. Skiptir máli hver er til rannsóknar? Nei, það skiptir ekki máli þegar ákvörðun er tekin. Í þriðja lagi, hvort einhverju sé ábótavant í samskiptum okkar við erlend lögreglulið. Almennt er svarið nei. Almennt eru þessi samskipti ágæt þótt þetta hafi komið upp á haustið 2011, en þá snýst málið um það frá mínum bæjardyrum séð að sjá til þess að íslensk lög og íslenskar reglur séu virtar.

Það sem skiptir máli í umræðu um þetta mál er að við séum nákvæm og sanngjörn í framsetningu á því. Staðreyndirnar eru þessar: Í júnímánuði árið 2011 berast ríkislögreglustjóraembættinu varnaðarorð frá bandarísku alríkislögreglunni FBI um að hugsanlega sé yfirvofandi árás á tölvukerfi Stjórnarráðsins og hugsanlega fleiri aðila í landinu. Yfirstjórn Stjórnarráðsins er þegar upplýst um málið, kemur saman til fundar og í kjölfarið er gripið til ýmissa varúðarráðstafana. Við hér á Alþingi höfum síðan sett lög sem eiga að tryggja betur tölvuöryggi Íslendinga og höfum sýnt í verki að okkur er alvara í þeim efnum.

Undir lok júnímánaðar berst í framhaldi af þessu beiðni um réttaraðstoð og réttarbeiðni frá bandarísku alríkislögreglunni, dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur milligöngu um það en beiðnin er frá FBI og saksóknara New York-ríkis. Þegar beiðni um réttaraðstoð berst er farið að samkvæmt lögum nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, sem geymir ákvæði um réttaraðstoð.

Hvað er réttarbeiðni? Hún er beiðni um að eiga samstarf um tiltekna lögregluaðgerð eða tilteknar lögregluaðgerðir. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Samkvæmt þessum lögum hafa okkur borist á fimm ára tímabili, frá 2007–2012, 203 réttarbeiðnir erlendis frá. Við höfum sent frá okkur 54 beiðnir. Iðulega hafa verið sendar inn framhaldsbeiðnir ef upphaflega beiðnin þykir ekki rúma þá aðgerð eða aðgerðir sem óskað er eftir að grípa til. Þetta gerist iðulega. Þetta er gangur þessara mála.

Eftir að réttarbeiðnin berst okkur sendum við hana samkvæmt lögum til ríkissaksóknara. Hann tekur hana til meðferðar en samkvæmt sömu lögum á hann að rannsókn lokinni að senda okkur skýrslu þar að lútandi. Þannig er aðkoma innanríkisráðuneytisins tryggð í lögum. Hún skal vera með þessum hætti. Þetta gerðist í þessu máli í júní og byrjun júlí árið 2011.

Síðan gerist það í ágústmánuði að okkur er sagt af hálfu ríkissaksóknara — það er ríkissaksóknari sem hefur samband við innanríkisráðuneytið, enda er hann meðvitaður og embættin meðvituð um lagalega skyldu embættisins í þessum efnum — að það séu að koma FBI-menn til landsins til rannsókna á máli. Það er 24. ágúst. 25. ágúst fáum við að heyra nánar um hvers eðlis þessi rannsókn er og þá kemur á daginn að hún snýst ekki um hina meintu tölvuárás sem okkur var greint frá í júní fyrr um sumarið heldur um sakamál sem verið er að höfða í Bandaríkjunum, þ.e. að verið sé að afla gagna í sakamáli í Bandaríkjunum, þetta væru yfirheyrslur í tengslum við það. Þetta er með öðrum orðum annað mál. Þá tökum (Gripið fram í.) við það til skoðunar í ráðuneytinu (Forseti hringir.) af hálfu sérfræðinga þess. Niðurstaðan verður sú að réttarbeiðnin frá því í júní rúmi ekki þessa nýju aðgerð. Þess vegna er bent á að nú þurfi, ef á að vera (Forseti hringir.) framhald á framkvæmd þessarar óskar, að berast ný réttarbeiðni. Hún barst ekki.