141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kemur fram í Evrópuskýrslunni sem rituð var af nefnd undir forustu Björns Bjarnasonar, og ég reyndar sat í, eru raktar fjölmargar sérlausnir sem taka á hlutum allt frá fiskveiðum til fasteignaviðskipta og til landbúnaðar. Engum vafa er undirorpið í mínum huga að við getum náð fram mikilvægum hagsmunum með því að semja um sérlausnir.

Ég segi því við hv. þingmann: Hann ætti frekar að koma með mér á vagninn, ýta á eftir honum og hjálpa til við það. Það skiptir miklu máli að horfast í augu við þann möguleika að aðild gæti verið samþykkt jafnvel þó að hv. þingmaður sé á móti henni, og þá skiptir máli að samningurinn verði sem bestur. Þetta er eitt af lykilatriðunum sem við höfum sett fram.

Ég tel, og reyndar ekki bara ég heldur fleiri, t.d. fyrrverandi samningamaður Noregs, að við munum geta náð þessu fram með samningum. Ástæðan er tvíþætt. Við höfum miklu sterkari rök en Norðmenn og viðhorfin eru breytt innan Evrópusambandsins. (Gripið fram í.)