141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:05]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Sitthvað er barnsleg óskhyggja og veruleiki. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni. Hefur hann fengið vilyrði fyrir því að veitt verði varanleg undanþága frá laga- og regluverki Evrópusambandsins? Ekki einhverjar tímabundnar sérlausnir sem eru síðan háðar í rauninni samþykki Evrópusambandsins á hverjum tíma þegar þær renna út eftir sín tímamörk. Þetta veit ráðherrann. Hann veit líka að engar lagalegar undanþágur eru í boði. Og þá á að tala hreint út. Sérlausnir um takmarkaðan tíma geta verið í boði en ekki varanlegar.

Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi fengið slíkar yfirlýsingar og hve margar slíkar undanþágur hafi verið gefnar á undanförnum árum með inngöngu Austur-Evrópuþjóðanna í Evrópusambandið, undanþágur frá laga- og regluverki Evrópusambandsins.

Ein undanþága var veitt af praktískum ástæðum á sínum tíma við inngöngu Möltu vegna fasteignamála þar. Hinar undanþágurnar eru ekki bundnar í lögum og eru bara sérlausnir í þessu seinna inntökuferli í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra.