141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir skýrsluna og þessa umræðu. Ég reyndi að hlusta grannt eftir því sem hæstv. ráðherra sagði, en það kann þó að vera að ég hafi misst af því að hann hafi fjallað um loftrýmisgæsluna í ræðu sinni, en það er gert í skýrslunni á bls. 80. Þar segir í stuttu máli að loftrýmisgæsla NATO hafi farið fram með hefðbundnum hætti á síðasta ári og muni fara hefðbundið fram á þessu ári. Frá árinu 2007 hafi 14 vaktir verið staðnar af sjö þjóðum o.s.frv. Sem sagt, „business as usual“ svo að ég leyfi mér að sletta hér.

Herra forseti. Þetta vekur spurningar um hvað hefur orðið af þeim fyrirheitum sem gefin eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um endurskoðun á loftrýmisgæslunni, eða eins og þar segir „í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland. Unnið verði á grundvelli víðtæks öryggishugtaks og áhersla lögð á sameiginlegt alþjóðlegt öryggi.“

Hvar er þetta mál statt? Hefur ráðherrann horfið frá þessu stefnumiði?