141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mörgum mikilvægum efnum hefur okkur tekist að ná fram skilningi á ákveðinni sérstöðu. (VigH: … sérstöðu?) Eins og fram kemur í skýrslunni er það rakið mjög ítarlega t.d. í tengslum við samningana um aðild að Evrópusambandinu. Ég er bara að tala út frá staðreyndum. Ég er bara ærlegur við hv. þingmann. Ég er að segja henni hvað mér finnst, hvernig ég upplifi það gagnvart EES-samningnum að stofnanaminni sambandsins gagnvart honum er að hverfa. Viljinn til að leggja sig fram til að skilja ákveðna hluti innan samningsins er ekki jafnríkur og hann var áður. Það vita t.d. allir þingmenn sem eiga sæti í EFTA-þingmannanefndinni. Skortur á þessu kemur þar reglulega upp sem umræðuefni.

Það sem hv. þingmaður talar hér um eru undanþágur frá reglum. Eins og hún er alltaf að segja sjálf er vilji ESB ákaflega lítill til þess að veita undanþágur. Það er hins vegar hægt í sumum tilvikum að ná fram ákveðnum sérlausnum. Það hafa önnur ríki gert en það verður ekki auðvelt, ég hef aldrei sagt að það væri auðvelt að biðja um slíkt í samningunum um aðild en við verðum (Forseti hringir.) alla vega að láta á það reyna. Það er ekkert sjálfgefið (Forseti hringir.) og það verður að draga þetta fram við samningaborðið. (VigH: Dylgjur.)