141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að ræða sama mál og þegar hefur verið til umræðu, þ.e. makríldeiluna. Þó ætla ég að biðja hv. þingmann að halda aðildarumsókn að Evrópusambandinu utan við það mál vegna þess að ég ætla að ræða það á öðrum forsendum.

Ég gat ekki heyrt betur en að hv. þingmaður, sem er formaður í stjórnmálaflokki, talaði á þeim nótum að við hefðum engar alþjóðlegar skuldbindingar þegar kæmi að auðlindanýtingu á þessari auðlind sem við deilum sannarlega með öðrum. Ég vil heyra það frá hv. þingmanni hvort ég hafi misskilið hann að því leyti. Hér er nefnilega talað á þessa leið: Já, makríllinn er inni í íslenskri lögsögu og við megum bara nýta hann eins og við viljum. Það er stundum látið þannig í umræðunni. Við megum bara gera það sem okkur sýnist. En það er ekki þannig, frú forseti.

Við höfum skuldbindingar, m.a. í hafréttarsáttmálanum, sem segja til um að við deilum ásamt öðrum þeirri ábyrgð að veiðarnar séu á sjálfbærum og ábyrgum forsendum. Ætlum við ekki að standa þannig að málum eða á bara að endurtaka t.d. það sem gerðist hér með kolmunnann, ofveiði, þannig að hann hvarf? Er það ábyrg og framsýn auðlindanýting bara af því að við megum það, bara til að sýna, til að hnykla vöðvana og sýna öðrum að við megum það? Er það stefna Framsóknarflokksins?