141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn heldur hv. þingmaður áfram með þennan málflutning sinn sem getur í besta falli kallast útúrsnúningar. Hann spyr hvort ekki beri allir ábyrgð á því að veitt sé of mikið óháð því hvað Íslendingar veiða mikið. Þá mætti spyrja á móti: Ef Íslendingar ákvæðu að gefa nánast allt eftir og veiða ekki nema 2% og Evrópusambandið segði samt: Nei, þið megið ekki veiða 2%, þið megið veiða 0,5%, bæri Ísland þá enn ábyrgð á því að makríll væri ofveiddur? Að sjálfsögðu ekki. Að sjálfsögðu þarf að taka mið af því hversu stór hluti stofnsins er inni í lögsögu hvers ríkis, hversu lengi og hversu mikið kvikindið étur á hverjum stað.

Þessi makríll, sem kemur hér yfir eins og engisprettufaraldur og þyngist um helming í íslenskri lögsögu, er ekki veiddur meira en svo að ef við lítum til þeirra viðmiða sem lögð eru til grundvallar þegar menn semja innan alþjóðlegra reglna um hvað sé eðlilegt, veiðum við ekki jafnmikið og við gætum gert kröfu til.

Ísland hefur því gefið heilmikið eftir. Það er ekki hægt að íslenskur hv. þingmaður komi hér upp hvað eftir annað og lýsi því yfir að sama hversu mikið Ísland gefi eftir berum við alltaf ábyrgð á ofveiði þótt Evrópusambandið og Noregur gangi fram með þeim hætti sem þau gera. Slík undanlátssemi er stórvarasöm og er kannski enn ein áminningin um hætturnar sem fylgja því ef gengið yrði í Evrópusambandið.