141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja varðandi EES-málin að það er mín reynsla af því að hafa til dæmis verið í sameiginlegu EES-nefndinni í sex ár og formaður hennar í fjögur ár að á vettvangi þingmanna Evrópuþingsins sé áhugi á EES-samstarfinu takmarkaður. Það er það sama og ég veit að kollegar okkar í norska Stórþinginu og svissneska þinginu og Liechtenstein hafa upplifað á umliðnum árum. Það kann að hafa verið eitthvað öðruvísi fyrir einhverjum árum síðan en það er upplifun okkar núna að skortur sé á áhuga á því.

Hitt er svo annað mál að ég er alveg sammála því að EES-samningurinn byggir á tveggja stoða lausn og annar aðilinn, samningsaðilinn, getur ekki ákveðið einhliða að ýta henni til hliðar, um það verður þá að semja. Ég er algjörlega sammála því að við eigum við að standa á því gagnvart Evrópusambandinu. Það breytir því þó ekki að (Forseti hringir.) EES-samstarfið hefur þróast undanfarin ár og hefur verið að rekast á stjórnarskrána, (Forseti hringir.) eins og ég sagði áðan, og við þurfum að geta brugðist við því.