141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert sem hv. þingmaður kom inn á og snýr að innflutningi á hráu kjöti sem meðal annars er ein af varnarlínunum sem voru settar af hálfu Bændasamtaka Íslands á sínum tíma og enginn hefur rengt að menn ætli að standa við. Þetta voru varnarlínur sem meðal annars sneru að því að verja innlenda matvælaframleiðslu og tryggja möguleika hennar til að sækja fram, verja sveitir og byggðir landsins og ráðherrar höfðu lýst því yfir, þar á meðal hv. þingmaður þegar hann var ráðherra, að hann mundi standa við þær varnarlínur sem hann rakti vel áðan að hann hefði gert.

Mér er minnisstætt að þegar stokkað var upp í ríkisstjórn á sínum tíma og hæstv. núverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra tók við embætti var hann spurður að því hvort verið væri að stokka upp vegna andstöðu við Evrópusambandsaðild og vegna þess að Evrópusambandsviðræðurnar gengju ekki nægilega vel fyrir sig þegar hv. þingmaður gegndi embættinu eða stöðunni. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra komst einhvern veginn þannig að orði að það mundi ekkert breytast með nýjum manni í brúnni, stefnan væri óbreytt og það yrði áfram staðið í lappirnar.

Síðan hefur hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra staðfest í umræðum á Alþingi að hann ætlaði að standa í lappirnar varðandi varnarlínur Bændasamtakanna og meðal annars innflutning á hráu kjöti. Er hv. þingmaður að segja að frá því að nýr ráðherra tók við þessum málaflokki, þeim mikilvæga málaflokki sem landbúnaðurinn fellur undir, (Forseti hringir.) hafi hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra enn á ný gengið á bak orða sinna?