141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við 2. umr. kom fram sá skilningur í atkvæðagreiðslu hjá þremur hv. þingmönnum að þetta mál bæri að skoða betur milli 2. og 3. umr. Fallist var á það og var málið skoðað mjög ítarlega í nefndinni og vil ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það, Helga Hjörvar. Við fengum gesti og farið var mjög nákvæmlega í gegnum málið vegna þess að það er mjög flókið. Þetta eru sjóðir sem geta sameinast og sundrast milli landa. Menn fóru í gegnum þetta með, eins og ég segi, Seðlabankanum. Síðan fengum við skrifleg svör frá honum. Þetta var mjög afdráttarlaust allt saman.

Það sem gladdi mig kannski mest og ég fékk að koma inn í þetta nefndarálit var að þar stendur — þá vil ég taka fram, frú forseti, að það er nefndin sjálf sem talar:

„Meiri hlutinn áréttar að lög um gjaldeyrismál ganga framar lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.“

Þarna er löggjafinn sjálfur að tala. Sem lögskýringargagn held ég að það gerist varla öllu sterkara nema setja það beint í lögin. Ég var það ánægður með þessa klausu að ég er með á nefndarálitinu.