141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

staða Íbúðalánasjóðs.

[10:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Staða Íbúðalánasjóðs hefur margoft verið til umræðu í salnum og í gær bárust fréttir af því að alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's hefði lækkað lánshæfismat Íbúðalánasjóðs niður í ruslflokk. Nú langar mig að varpa þeirri spurningu upp hvaða áhrif það hafi á stöðu ríkissjóðs að mati hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að vanda Íbúðalánasjóðs var ekki svarað í því fjárlagafrumvarpi sem var samþykkt í lok síðasta árs og ekki horfst í augu við þann vanda sem Íbúðalánasjóður er í.

Hvaða áhrif hefur það? Hvaða aðgerða ætla stjórnvöld sér að grípa til til að taka á þeim mikla vanda Íbúðalánasjóðs? Hvert er planið? Við sjálfstæðismenn höfum margoft kallað eftir því á þessu kjörtímabili að skýr svör séu um hvert er stefnt og hvert menn ætla vegna þess að staða sjóðsins er gríðarlega alvarleg.

Þegar við horfum á heildarmyndina og stöðu sjóðsins gagnvart heildarmyndinni í efnahagsmálum okkar þarf auðvitað að ræða það allt saman í einu lagi. Við horfum fram á að kjarasamningar eru lausir. Við sjáum að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki náð taki á efnahagsstjórninni. Það er einn hluti af stórum vanda ríkisstjórnarinnar. Hluti af þeim stóra vanda sem menn hafa ekki horfst í augu við og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra að því hvert planið er og hvert menn ætla. Það var kallað eftir því í umræðu um Íbúðalánasjóð í þinginu fyrir rúmu ári síðan að fram kæmi áætlun um hvernig yrði gripið inn í stöðu sjóðsins. Sú áætlun hefur enn ekki litið dagsins ljós. Henni var ekki svarað í fjárlögum. Hvað er það sem stendur til?