141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að ekki hafi verið farið sérstaklega yfir hvort við ættum ekki að fara í að reyna að þrengja hlutverk Ríkisútvarpsins, það voru bara engar undirtektir af hálfu hv. nefndarmanna. Ef menn voru að bíða sérstaklega eftir tillögum hefði fyrsta skrefið verið að segja: Já, við erum reiðubúin til að fara gaumgæfilega yfir það að reyna að takmarka hlutverk Ríkisútvarpsins. Á það var ekki hlustað. Ýmsum öðrum breytingum hefur þó sem betur fer verið tekið vel og ég vil segja, og mun koma að því á eftir, að sumt er jákvætt varðandi ýmsa aðra þætti.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann einhverja hættu á því varðandi 16. gr. — sem ég óttast svolítið þrátt fyrir skýran texta nefndarinnar um að þá grein beri að skýra þröngt — óttast hv. þingmaður að Ríkisútvarpið geti farið svolítið út fyrir sitt svið og hugsanlega farið inn á samkeppnisrekstur? Mun hann sem væntanlegur þingmaður á komandi þingi fylgja því eftir að (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið fari að lögum, skilgreini og fari að (Forseti hringir.) þröngri túlkun löggjafans eins og ætlunin er af hálfu nefndarinnar?