141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Með vísun í Evrópulög um neytendavernd, nr. 48/2008, segir að upplýsingar um greiðslu lána verði að vera lántakandanum ljósar fyrir fram á gegnsæjan hátt. Ef því gegnsæi er ekki fyrir að fara er samningurinn talinn ógildur eða að minnsta kosti hluti hans. Það var til að mynda niðurstaða íslenskra dómstóla um gengistryggðu lánin, að sá hluti samningsins sem náði til höfuðstólsins var talinn gildur en sá hluti samningsins sem náði til vaxta og afborgana var ógildur. Samkvæmt því eiga fjármálastofnanir að reikna húsnæðislánin út fyrir fram en á Íslandi breytist upphæð höfuðstólsins eftir á vegna verðtryggingar. Það er í andstöðu við neytendaverndarlögin.

Fjármálastofnanir, og þar með talinn Íbúðalánasjóður sem geymir flest verðtryggðu lánin, eru í raun og veru varðaðar af verðbólgunni og taka enga áhættu með lánum sínum. Neytendur taka alla áhættu. Það virðist, virðulegur forseti, sem framkvæmd verðtryggðra lána á Íslandi brjóti gegn neytendaverndarlögum með tvennum hætti. Annars vegar er það tilgreint í lögunum að lántaki verði að geta séð hvernig höfuðstóllinn þróist út lánstímann og svo er ekki hjá okkur. Í öðru lagi megi ekki misbjóða lántakanda með því að breyta lánsupphæð eftir á en það gerist hjá okkur. Það er þannig í dag að neytendur standa uppi með alla áhættu af verðbólgunni sem reiknast á lánin eftir á.

Þetta eru í raun okurlán þar sem verðbólgan, sem er háð óvissuþáttum, fellur á neytendur með tvöföldum hætti, bæði í gegnum vexti og verðbætur. Við þurfum að ræða Íbúðalánasjóð í því samhengi. Hann geymir flest verðtryggðu lánin en við þurfum að ná fjárfestum Íbúðalánasjóðs að borðinu til að semja um lán sjóðsins svo hægt sé að afnema verðtryggingu á húsnæðislánum. Við þurfum að sammælast (Forseti hringir.) um það verkefni og skora á dómstóla að hefja flýtimeðferð á þeim málum sem nú liggja fyrir dómstólum og tengjast verðtryggingunni.