141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

staða aðalvarðstjóra á Höfn.

534. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa blandað sér í umræðuna um þessi mikilvægu mál. Ég fagna því ef skýrslan sem komst til tals er tilbúin og vonast til þess að hún fái pláss í þinginu og fái góða umræðu hið fyrsta þannig að við náum, af því að nú eru bara átta þingdagar eftir af þessu kjörtímabili, að ræða þetta og koma því á hreint hver forgangsatriðin eiga að vera gagnvart löggæslunni. Að mínu mati hefur verið gengið of hart fram í niðurskurði á þessu sviði.

Varðandi þessa fyrirspurn og þá stöðu á Hornafirði sem hér er rætt um hefur þessi tillaga að skipulagsbreytingu beðið í talsverðan tíma eftir afgreiðslu í ráðuneytinu. Ég óska eftir skýrari svörum um það hvenær svara sé að vænta. Við getum deilt um það hvort skipulagsbreytingin sé góð eða ekki, en það gengur auðvitað ekki að á meðan menn geta ekki komist að niðurstöðu um hvað þeir eigi að gera gangi færri lögreglumenn vaktir þar eystra. Ég hef áhyggjur ef menn þora ekki eða vilja ekki taka ákvarðanir um þetta fljótt og vel. Ég hef þá skoðun að það þurfi að efla löggæsluna, sérstaklega á landsbyggðinni.