141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherranum svörin sem eru byggð á þeim lögum og reglugerðum sem til eru, en ég held að raunveruleiki þeirra sem búa við fjölþættar skerðingar sé töluvert annar en það sem fram kemur í lögum og reglugerðum.

Ég er hér með rannsóknarritgerð sem heitir „Við gerum bara eins og við getum“ – Reynsla starfsfólks í búsetu- og hæfingarþjónustu. Þetta er ritgerð eftir Guðnýju Jónsdóttur iðjuþjálfa á Endurhæfingu – þekkingarsetri í Kópavogi. Þetta er mikil og góð bók. Hún sýnir svart á hvítu að raunveruleiki þeirra sem búa við fjölþættar skerðingar og eru 18 ára og eldri er annar en lög og reglugerðir segja til um.

Ég spurði hér hæstv. ráðherra um hjálpartæki og hvort ástæða þætti til að breyta aðgengi að þeim. Hjálpartækin eru tengillinn á milli skerðingar og færni. Þau eru grunnatriðin til þess að þeir sem búa við fjölþættar skerðingar geti þjálfað sig og raunverulega lifað lífinu. Ég tel því ástæðu til, þrátt fyrir góða löggjöf og reglugerðir, að við skoðum enn frekar og tökum til endurskoðunar þjónustuna og skipulag með tilliti til þeirra þátta sem snúa að heilsu og færni og að við horfum til þeirra aðgerða sem fyrirbyggja frekari fötlun og þátta sem styðja lífsgæði og þátttöku.

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að með fjölbreyttri tækni og þróun í heilbrigðisvísindum aukast lífslíkur þeirra sem búa við fjölþættar skerðingar. Þess vegna þarf samfélagið allt að horfa til þess að auka lífsgæði þessara einstaklinga og þátttöku þeirra í samfélaginu.

Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað.