141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Það er gott að nefndin hefur hafið störf. Þetta var samþykkt síðasta vor, í mars árið 2012, en nefndin var því miður ekki skipuð fyrr en í nóvember. Það er kannski skýrasta dæmið um forgangsröðunina, það er mjög miður. En við því er ekkert að gera. Þeir sem hafa hlustað á umræðuna heyra að samhljómur er á milli mín og hv. þm. Helga Hjörvars. Ég held að samhljómur sé sömuleiðis hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, ég gat ekki heyrt annað, þannig að við erum alla vega þrjú, og ég á alveg von á því að almennt sé samhljómur um markmiðin. Ég hélt að samstaða væri um að forgangsraða, en það gerðist ekki. Orð eru til alls fyrst. Við skulum vona að nefndin sem vísað var til komi með góðar tillögur sem við getum unnið úr sem allra fyrst.