141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

neytendalán.

220. mál
[18:06]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir gott nefndarálit og ágæta ræðu. Það eru margar athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í nefndarálitinu eins og þær að Íslendingar hafa sennilega sett heimsmet í vanskilum á fasteignalánum. Þetta eru upplýsingar sem ég hafði ekki heyrt áður eða lesið um áður.

Ég er hins vegar að velta fyrir mér stefnu Framsóknarflokksins sem felst í því að afnema beri verðtrygginguna. Margir halda því fram að afnám verðtryggingar muni fjölga þeim sem lenda í vanskilum með fasteignalánin sín. Ástæðan er sú að við það að fara úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð muni fólk staðgreiða stærri hluta af verðbótaþættinum en það gerir í gegnum verðtryggðu jafngreiðslulánin

Ég hef áhuga á að vita hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að þessi gagnrýni byggi á þeirri skoðun að vaxtastigið haldi áfram að vera hátt hér á landi. Eins og hagfræðingurinn Ólafur Margeirsson hefur bent á þá hefur vaxtastigið eftir hrun verið um 15%, sem er með því hæsta sem gerist í heiminum, og allt of hátt fyrir heimili landsins. Við það að afnema verðtrygginguna munu bankarnir ekki komast upp með 15% nafnvexti á fasteignalánum og munu við afnámið neyðast til að lækka nafnvexti. Er hv. þingmaður sammála þessu?