141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

menningarstefna.

196. mál
[18:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að fá að leggja orð í belg um menningarstefnuna sem hér er til umræðu. Ég á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og hef skoðað þetta mál ásamt öðrum hv. þingmönnum þar og tek fram að ég er á nefndarálitinu, án fyrirvara. Reyndar eru allir hv. þingmenn í nefndinni á nefndarálitinu og við höfum skoðað þetta mál ágætlega.

Ég vildi koma því á framfæri hér almennt að ég tel þetta mál vera til bóta, það er rammi um hvert stefna beri í menningarmálum á Íslandi. Sumum finnst þetta falleg orð á blaði og lítið meira, en ég er ekki alveg sammála því. Ég held að þetta sé ákveðið stef sem við erum að koma fram með, ákveðið leiðarljós og mikilvægt að vera með svona almenna stefnu.

Af því að sú er hér stendur er búin að taka virkan þátt í norrænu menningarstarfi í sjóði sem heitir Norræni menningarsjóðurinn get ég sagt það að þar er ákveðin stefna uppi sem hefur verið fylgt núna um nokkurn tíma og það er búið að endurskoða hana nokkrum sinnum. Stefnan þar er í dag að styrkja verkefni sem hafa ákveðinn tilgang og það eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til að eiga meiri séns í að fá styrki úr þeim sjóði.

Þau skilyrði eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi að styrkja menningu barna og ungmenna, það er mjög sterkt leiðarljós. Í öðru lagi að styrkja menningu sem er á dreifbyggðum svæðum eða í dreifbýli. Í þriðja lagi að styrkja menningu sem snýr að nýbúum, þ.e. nýjum norrænum íbúum sem koma erlendis frá, reyna að ná þeim inn í menningarsamstarf og menningu á Norðurlöndunum og gera þá þátttakendur í samfélaginu. Í fjórða lagi er sérstaklega litið til þess að brúa menningarsamstarfið yfir hafið, á milli svokallaðra Vestur-Norðurlanda og Austur-Norðurlanda. Þetta eru þessi fjögur skilyrði eða leiðarljós sem unnið er að á norrænum vettvangi og það er ágætt að segja frá því að í þeirri menningarstefnu sem við fjöllum um núna og munum væntanlega greiða atkvæði um bráðlega endurspeglast þessi norræna stefna að verulegu leyti. Áherslan er á börn og ungmenni og einnig á dreifðar byggðir, af því að þéttbýlið hefur frekar séð um sig sjálft og þar hefur ekki þurft að aðstoða eins mikið við að láta menninguna blómstra. Svo er líka áhersla á nýbúa, sem sagt að samþætta menninguna þannig að allir fái notið sín.

Það er gaman því að þetta fellur vel saman og ég tel, meðal annars þess vegna, að við séum hér á réttri leið. Þetta er alveg í takti og í samhljómi við hina norrænu menningarstefnu sem við höfum unnið eftir um nokkurt skeið með ágætis árangri.

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegur forseti, og segi í heildina að þetta mál er til bóta og ég mun styðja það í fyrri atkvæðagreiðslunni síðar. Framsóknarflokkurinn er líka með sína menningarstefnu og þetta er í anda hennar.