141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[19:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um: Hvernig sér hún það fyrir sér að afgreiða þetta mál á þessu þingi og hvers vegna telur hún að það sé mikilvægt? Í framhaldi af því, ef svarið er játandi, spyr ég um breytingu sem gerð var á 2. gr. frumvarpsins, þar sem segir:

„Ráðherra er heimilt að ákveða að tilteknir skýrt afmarkaðir, minni byggingarhlutar, eða byggingar, séu boðnir út í formi langtímaleigu telji hann það þjóna heildarhagsmunum verkefnisins.“

Er það þá meiningin að þessir hlutar verði boðnir út í svokallaðri leiguleið eða einkaframkvæmd, er þá verið að sækja um heimild til að fara inn á þá braut?