141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[20:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við erum í þröngri stöðu, þ.e. ríkissjóður. Því gerum við okkur vel grein fyrir og bara vaxtagreiðslurnar á þessu ári, við gætum byggt heilan Landspítala fyrir þær og gott betur. Við gætum gert það.

Frú forseti. Sýnt hefur verið fram á að þessir 80 milljarðar eru brúttó líka með fjármagnskostnaði. Byggingarnar eru um 60 milljarðar og svo koma tækjakaup ofan á og fjármagnskostnaður. Verði ekki farið í þessa byggingu munum við þurfa að ráðast í verulegar endurbætur á spítalanum á næstu árum. Við þurfum að ráðast í tækjakaup og við megum heldur ekki gleyma áhrifunum sem koma til baka. Eins og kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er gert ráð fyrir að töluvert komi til baka í formi virðisaukaskatts og líka í sölu á eignum. Þannig að þetta er ekki svona há tala.

Nú stöndum við frammi fyrir því að búta verkefnið þannig niður að það passi inn í ríkisfjármálaáætlunina. Ekki er verið að taka ákvörðun um það hér og nú að fara af stað í haust. (Forseti hringir.) Við erum að taka ákvörðun um þessa formbreytingu þannig að verkefnið geti þó alla vega haldið áfram og menn farið að finna því stað í ríkisfjármálaáætlunum í framtíðinni.