141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ágætt að eiga orðastað við hæstv. fyrrverandi ráðherra heilbrigðismála. Hún sagði í ræðu sinni — sem var ágæt og þar var komið víða við — að starfsmenn legðu sig verulega fram. Ég efa það ekki. Stjórnmálamennirnir hafa ekki lagt sig fram, þeir standa sig ekki.

Mér finnst alveg fráleitt að frumvarpið skuli koma fram núna en ekki með fjárlagafrumvarpinu síðasta haust. Mér finnst það alveg fráleitt, þetta lá fyrir þá. Hvers vegna var það, herra forseti? Sennilega vegna þess að menn vildu ekki sýna skuldbindinguna í fjárlögum vegna þess að stjórnarskráin segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ (Gripið fram í.) Ég er enn að lesa upp úr stjórnarskránni af því að ég vil helst að menn fari að henni. Það er búið að leggja út heilmikinn kostnað á grundvelli einhverrar 6. gr. heimildar við hönnun og annað slíkt. Hér stendur að ef menn ætli að byggja þennan spítala kosti það 44 milljarða. Það þarf að koma inn í fjárlög því að það er bannað samkvæmt stjórnarskránni líka: „Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins …“ Það verður að geta um allar skuldbindingar ríkissjóðs, og þetta er ein af þeim. Það mundu því koma inn í fjárlög 44 milljarðar að lágmarki bara við fyrsta áfangann.

Svo sagði hv. þingmaður að þetta væri tæknilegt mál og það væri betur fyrir okkur komið. Nú er það þannig að skuldir ríkissjóðs vaxa á hverju ári heilmikið, ríkisreikningur er allt annar en fjárlögin. Verið er að gusa út peningum fram hjá fjárlögum eða í kringum þau, 50 milljörðum á hverju ári. Ég er því ekki viss um að það sé betur fyrir okkur komið, enda gat ég um það í sambandi við þá umræðu að milljarðatugir hafi verið ófærðir.