141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það hefði verið sterk forusta í málinu væri ekki þessi mikla andstaða úti í þjóðfélaginu sem við finnum fyrir, [Kliður í þingsal.] ekki væri þessi misskilningur í gangi og hinar ýmsu ranghugmyndir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fara í ræðustól ef hann vill tjá sig um málið.

Og varðandi hvað búið er að gera á þessu kjörtímabili þá man ég það nefnilega vel þegar þetta mál kom inn í þingið allt of seint, fyrir fjárlögin 2010 held ég. Þá var því heitið að málið kæmi aftur til þingsins með góðum fyrirvara þannig að menn hefðu nægan tíma til að fara yfir það. Það mun ekki gerast úr þessu, það er eitt sem er algerlega öruggt.

Ég var ekki að spyrja hv. þingmann um það hvort hún væri að semja um þessi mál, ég var að spyrja um afstöðu hennar vegna þess að það skiptir afskaplega miklu máli. Það skiptir afskaplega miklu máli fyrir okkur sem viljum sjá þetta verkefni verða að veruleika, vegna þess að við höfum sannfæringu fyrir því að þetta sé rétta leiðin, að vinnubrögðin séu þannig að sómi sé að og við fáum fólk til fylgis við verkefnið. Ég er ekkert að karpa við hv. þingmann. Ég er bara að spyrja hana í fyllstu einlægni hvort hún vilji beita sér fyrir því að málið sé sett í forgang á þessum síðustu dögum þingsins. Við breytum því ekki úr því sem komið er. Þrátt fyrir að menn segi að hér sé um formbreytingu að ræða og þetta sé svo lítið mál þá er það á engan hátt lítið.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson er þingmaður sem kynnir sér mál afskaplega vel og hann fór yfir það að þegar málið var rætt hér síðast fékk hann ekki svör við þeim spurningum sem hann lagði upp þá. Eðli málsins samkvæmt mun hann og aðrir hv. þingmenn spyrja sömu spurninga núna og það þarf tíma til að svara þeim og við þurfum tíma til að koma þeim skilaboðum (Forseti hringir.) áleiðis til almennings í landinu. Vill hv. þingmaður beita sér fyrir því að við setjum málið í forgang núna síðustu dagana eða ekki?