141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

vegurinn um Súðavíkurhlíð.

[10:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fullkomið ófremdarástand ríkir nú á veginum um Súðavíkurhlíð. Þessi vegur tengir saman byggðirnar í Álftafirði og Skutulsfirði, norðanverða Vestfirði, og er þjóðleiðin frá norðanverðum Vestfjörðum og suður til Reykjavíkur og skiptir þess vegna gríðarlega miklu máli.

Í fyrsta lagi hefur komið í ljós á síðustu á síðustu dögum að vegurinn er í raun og veru ónýtur. Hann hefur ekki fengið eðlilegt viðhald árum saman. Þetta er gamall vegur sem er í rauninni orðinn ónýtur þegar á það er litið.

Í öðru lagi hefur verið að renna upp fyrir æ fleirum að vegurinn er hættulegur. Það höfum við auðvitað vitað. Þarna hafa fallið mörg snjóflóð á undanförnum árum og snjóflóðatíðni hefur á stundum verið meiri á Súðavíkurhlíð en á Óshlíð.

Við stöndum þess vegna núna frammi fyrir veruleika sem við verðum að horfast í augu við. Við höfum verið að áforma tilteknar breytingar og lagfæringar á veginum. Ég tel að í ljósi alls þessa blasi í fyrsta lagi við okkur öryggissjónarmiðin, í öðru lagi þýðing vegarins og í þriðja lagi sú staðreynd að vegurinn er ónýtur. Þá tel ég mjög mikilvægt að menn skoði þetta núna upp á nýtt með skírskotun til öryggissjónarmiðanna sérstaklega.

Árið 2002 var gerð skýrsla um vegina milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Þar er meðal annars fjallað um möguleika á jarðgöngum milli Súðavíkur og Ísafjarðar og gert ráð fyrir því að þau jarðgöng mundu stytta veginn inn Djúp um 9 km. Það er alveg ljóst mál að samkvæmt útreikningum hefði þetta kostað á þágildandi verðlagi um 3 milljarða kr. Það er hins vegar talið að þessi stytting sé svo mikils virði að hana megi meta á þágildandi verðlagi að upphæð 1 milljarðs kr. Með öðrum orðum er ljóst að þetta er hagkvæm leið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) ekki sammála mér um að núna þurfi að fara fram tafarlausar undirbúningsrannsóknir að mögulegri jarðgangagerð þarna á milli? Við vitum að jarðgöng verða ekki hrist fram úr erminni en orð eru til alls fyrst. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að það sé brýnt í ljósi þess sem ég hef áður sagt að menn fari (Forseti hringir.) í slíkar athuganir hið fyrsta?