141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

vegurinn um Súðavíkurhlíð.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að mikilvægt er að við séum stöðugt á tánum og tilbúin að endurskoða fyrri áætlanir okkar og ráðagerðir með hliðsjón af öryggismálum í samgöngukerfinu, ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar. Hitt er svo annað mál að við vinnum samkvæmt áætlunum sem Alþingi samþykkir, samgönguáætlun til langs og skemmri tíma. Núna liggur fyrir þinginu endurskoðuð skammtímaáætlun Alþingis og mér finnst eðlilegt að þessi mál verði skoðuð við yfirferð þingsins og þingnefnda.

Þegar veður gerast válynd er eðlilegt að þessi mál beri á góma á þingi. Hv. þingmaður vísar í tiltekinn vegarkafla, Súðavíkurveg, og minnir okkur á snjóflóðahættu á því svæði. Hann vísar til fyrri rannsókna sem gerðar hafa verið og mér finnst eðlilegt að við tökum þetta upp við Vegagerðina og könnum stöðu mála. Að því leyti vil ég taka undir með hv. þingmanni, en að öðru leyti treysti ég mér ekki til að svara um áform Vegagerðarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum.