141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mig langar að byrja á því að þakka meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir alla þá góðu vinnu sem hann hefur lagt í þetta ferli og tek undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að ég er full sorgar ef það á að enda þannig að málið verði tekið út af dagskrá og af Alþingi að eilífu. Ég mun gera allt sem ég get til að tryggja að svo verði ekki, þótt ekki séu mörg verkfæri í boði.

Mig langaði að spyrja hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um hvaða mál það eru, til dæmis í mannréttindakaflanum, sem stjórntæknilegur ágreiningur stendur um, ef það eru einhver sérstök mál. Ég hef upplifað að almenn sátt sé um til dæmis mannréttindakaflann og hef reynt að fá svör um hvað það sé nákvæmlega sem ekki er sátt um. Ég heyrði reyndar núverandi formann Sjálfstæðisflokksins lýsa því yfir í gær að engin ástæða væri til að breyta mannréttindakaflanum. Er það mögulega þar sem hnífurinn stendur í kúnni? Að almennt álit sumra þingmanna sé að ekki neitt tilefni sé til að breyta þeim kafla? Eru einhverjir alvarlegir vankantar á kaflanum um mannréttindamálin? Ef svo er, gæti hv. þingmaður bent mér á hverjir þeir eru svo að hægt sé að skoða þá milli 2. og 3. umr., ef sú umræða mun einhvern tíma eiga sér stað í þessum þingsal?