141. löggjafarþing — 89. fundur,  6. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rifjar upp árið 2009. (ÁI: … Framsóknarflokkurinn.) Mér er minnisstætt þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð lofaði því árið 2009 að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu (Gripið fram í.) og væri kannski ágætt hjá hv. þingmanni að rifja það upp hér. Svo erum við komin hingað og það er merkilegt að hv. þingmaður komi ekki inn á einn punktinn í tillögunni sem snýr að því að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda til alþjóðlegra stofnana. Það er merkilegt að hv. þingmaður komi ekki inn (Gripið fram í.) á það í tillögum sínum. (Gripið fram í.) Við eigum að standa vörð um það að auðlindir séu í þjóðareign en ég held að öðru leyti dæmi ræða hv. þingmanns sig sjálf. (Gripið fram í.) Það er ekki vilji til þess hjá hv. þingmanni til að ná breiðri samstöðu um málið og það dæmist bara af ræðu hv. þingmanns. Ég hef lýst mig fyllilega tilbúinn til þess. Framsóknarflokkurinn hefur lýst sig fyllilega tilbúinn til þess að ræða útfærsluatriði sem snúa að einstökum breytingum hvað varðar ákvæði í stjórnarskrá.

Hv. þingmaður viðraði ýmsar tillögur og hefur gert það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við skulum halda áfram að ræða það en það er bara ekki vilji til þess hjá hv. þingmanni, hvorki fyrr né nú. Það er dapurlegt og þess vegna sem málið komið á þann stað þar sem það er núna. Tíminn er að renna út og þess vegna er bryddað upp á svona aðferðum. Það dæmir sig sjálft hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Þið eruð búin að dæma ykkur úr leik …) (Gripið fram í.)