141. löggjafarþing — 91. fundur,  7. mars 2013.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þm Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ritar á bloggi sínu í dag, sem lesa má á netmiðlum, að Vinstri græn hafi ráðist að Framsóknarflokknum og snúið á haus tillögu hans um að innleiða ákvæði auðlindanefndar frá árinu 2000 og að við höfum skrökvað til um hvað í tillögunni fælist og ráðist svo af ótrúlegum ofstopa á eigin ósannindi, eins og segir þar.

Þar segir líka að því hafi verið haldið fram að tillagan fæli það í sér að nýting auðlinda skapaði eignarrétt á þeim en það séu ósannindi og því mótmælir formaður Framsóknarflokksins. En hvað stendur í þeirri fréttatilkynningu sem formaðurinn sendi út í gær og er m.a. að finna á mbl.is? (Gripið fram í.)

Þar segir, jú, að náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign eftir því sem ákveðið er í lögum, en síðan segir að veita megi heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi að því tilskildu að hún sé tímabundin eða að henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögum.

Svo kemur setningin, með leyfi forseta:

„Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“

Þ.e. heimildin til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Og hvað segir í skýringum auðlindanefndar við það? (Gripið fram í.) Ójú, þar segir á bls. 28 í skýrslunni að kveðið sé á um það í niðurlagi 2. mgr., til þess að taka af allan vafa, að heimild til afnota eða hagnýtingar njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar sem eignarréttindi.

Og hvað segir í 72. gr. núgildandi stjórnarskrár? (SDG: Spurðu Margréti Frímannsdóttur sem skrifaði það.) Jú, þar segir (Forseti hringir.) að eignarrétturinn sé friðhelgur.

Þetta er tillaga Framsóknarflokksins og það eru því miður engin ósannindi. (LRM: Heyr, heyr.)