141. löggjafarþing — 92. fundur,  8. mars 2013.

Evrópustofa.

[10:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil ekki halda því fram að hv. þingmaður hafi orðið aðlögun á heilanum en ég sé ekki hvernig aðlögun að Evrópusambandinu tengist þessu. Viljum við ekki öll hafa umræðu sem er upplýst og byggir á staðreyndum? Viljum við ekki búa í lýðfrjálsu samfélagi þar sem borgararnir eiga rétt á því að spyrja og leita eftir upplýsingum? Ég hélt það. (Gripið fram í.) Getur verið að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir þekki feril síns flokks svo lítið að hún muni ekki eftir því þegar flokkur hennar gekk að því opnum augum að leyfa erlendum stórveldum á tímum kalda stríðsins að hafa hér uppi stórfelldar áróðursstofnanir fyrir sjónarmið sín? Ég nefni nú bara Upplýsingastofnun Bandaríkjanna. Ég gæti nefnt tvær stofnanir sem (Gripið fram í.) voru starfræktar hér á vegum Sovétríkjanna. (VigH: Ekki rétt.) Sennilega mætti segja að á þeim tíma hafi hlutfallslega verið miklu meiri áróðri dreift yfir þjóðina varðandi afstöðu þessara tveggja stórvelda. (Forseti hringir.)

Ég held að þrátt fyrir það sem hv. þingmaður sagði hérna áðan sé hún skíthrædd um að ef komi til kosninga um samninginn (Forseti hringir.) verði hann samþykktur. Ég er alveg sammála henni. Ég vek athygli á því að í öllum skoðanakönnunum, (Forseti hringir.) frú forseti, af því að þetta greiðir fyrir skilningi og þar með þingstörfum, (Forseti hringir.) þá hefur það komið fram að þjóðin vill halda áfram samningunum. (Gripið fram í.)