141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmönnum Björgvini G. Sigurðssyni og Árna Þór Sigurðssyni um þau mál sem hér hafa verið rædd, mikilvægi þess að við höldum haus og höldum kúrsi gagnvart aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar í bráð og lengd og afar mikilvægt að þjóðin fái loksins skýra kosti upp á borðið sem hún getur tekið afstöðu til.

Ég vildi ræða stjórnarskrármálið og stöðu þess. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur stigið fram fyrir skjöldu og tekið frumkvæði í því að freista þess að ná breiðari samstöðu á Alþingi um afgreiðslu stjórnarskrármálsins í þeim tilgangi að þetta sögulega og stórmerkilega ferli sem staðið hefur yfir megnið af kjörtímabilinu, allt frá þjóðfundi til stjórnlagaráðs og síðan með ítarlegri vinnu allra þingmanna í öllum þingnefndum, nái fram að ganga en verði ekki eyðilagt með þingtæknilegu ofbeldi. Þessar viðræður standa enn þá yfir og vonandi skila þær árangri því að auðvitað er það æskilegt til að tryggja hér stöðugleika og stjórnfærslu, æskilegt fyrir stjórnmálin í landinu og fyrir þjóðina, að sem mest samstaða ríki um stjórnarskrána og breytingar á henni.

En ég legg áherslu á að ef ekki nást samningar um þetta mál er það siðferðileg skylda okkar þingmanna að láta þetta frumvarp ganga til atkvæða í þinginu. Það er siðferðileg skylda okkar vegna þess að hér er ekki um venjulegt þingmál að ræða, hér er um að ræða mál sem þjóðin var sérstaklega spurð álits á, þ.e. hvort frumvarp stjórnlagaráðs ætti að vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Hún galt jáyrði við því. Það er ekki boðlegt fyrir Alþingi að hunsa þann vilja þjóðarinnar og fórna, á grundvelli þingtæknilegra bellibragða, öllu þessu merkilega ferli sem þjóðin sjálf hefur leitt í stærstu dráttum. Þá kemur bara í ljós hvort það er meiri hluti fyrir málinu á Alþingi. Almenningur ræður síðan framhaldi þess með atkvæði sínu 27. apríl. (Forseti hringir.) Kjósendur hafa þá í hendi sér hvort þeir velja flokka eins og Samfylkinguna sem vilja nýja stjórnarskrá eða flokka sem vilja halda sig við gamla Ísland.