141. löggjafarþing — 93. fundur,  9. mars 2013.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

630. mál
[12:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan hvort við gerð þessa frumvarps hefði verið skoðað hvort það ætti að veita óverðtryggð námslán líka og þá með hvaða hætti. Við hv. þm. Lilja Mósesdóttir erum sammála um að verðtryggingin sem slík kemur æðimörgum í bobba þegar verðbólgan er eins og hún er á Íslandi. Verðtryggingin ein og sér án verðbólgu er kannski ekki stórmál. Það vitum við. Hins vegar ríkir hér ekki almennur stöðugleiki og hefur ekki gert síðustu áratugina og þess vegna hefur verðtryggingin verið í þeim mæli sem hún er í og komið okkur í bobba, hvort heldur er í fasteignalánum eða námslánum.

Hv. þingmaður spyr hvort fella eigi niður námslánin við 67 ára aldur. Mér finnst það umhugsunarefni. Ég held að það eigi og megi að sjálfsögðu skoða. Á nákvæmlega sama hátt og við viljum hugsanlega hafa til framtíðar hvetjandi áhrif á niðurfærslu í formi styrkja til námsmanna finnst mér umhugsunarvert hvort við getum fellt niður námslánin við töku lífeyris og þá hvort sá aldur er 67 eða verður hækkaður upp í 70 ár eða hvort einhvern veginn þurfi að horfa til þess að draga úr endurgreiðslu námslána við þann aldur hjá æðimörgum sem hafa hugsanlega ekki þegar kemur að þessum blessaða aldri nægar tekjur til að standa straum af dýrum námslánum.

Mér finnst það umhugsunarvert og (Forseti hringir.) fari það inn í allsherjar- og menntamálanefnd verður það skoðað.