141. löggjafarþing — 98. fundur,  11. mars 2013.

framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014.

458. mál
[17:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Barnaverndarmálin eru einhver þau mikilvægustu sem við fáumst við um þessar mundir. Þessi áætlun er í raun og veru engin framkvæmdaáætlun, hún gildir að mestu leyti bara fyrir árið 2013. Þar er þegar búið að marka fjárhagslegan ramma, það gerðum við með afgreiðslu fjárlaga núna fyrir áramótin, þannig að þetta er í raun ekki nein framkvæmdaáætlun í þeim skilningi. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar við lesum áætlunina að lesa hana með fjárlögunum því að það eru þau sem munu þegar allt kemur til alls marka þann ramma sem starfsemin þarf að rúmast innan.

Við vitum að það eru gríðarleg viðfangsefni fram undan sem taka þarf á með margs konar hætti. Því er ekki svarað í áætluninni, það verða menn að hafa í huga og gera sér alveg fullkomlega grein fyrir.

Varðandi hina nýju meðferðarstofnun sem rætt er um og menn telja sig skuldbundna af eftir samþykkt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er gert ráð fyrir því í kostnaðaráætlun að hún kosti 250 millj. kr. í rekstri á ári hverju (Forseti hringir.) og er alveg ljóst mál að innan þess ramma sem barnaverndarmálin hafa í fjárlögunum rúmast sú starfsemi alls ekki.