141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er mottumars þar sem sérstök áhersla er lögð á að beina athyglinni að krabbameini hjá körlum. Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli sem margir þingmenn úr mörgum flokkum eru flutningsmenn að. Það greinast á Íslandi um 200 ný tilfelli á ári af völdum blöðruhálskirtilskrabbameins og um 50 karlmenn á aldrinum 45–80 ára látast úr sjúkdómnum á hverju ári. Aukin almenn vitund um sjúkdóminn er líkleg til að auka greiningarmöguleika á fyrstu stigum sjúkdómsins og þar með líkur á greiningu. Það er gert með því að fylgjast með svokallaðri PSA-mælingu í blóði. Það er tiltölulega einfalt en örar breytingar á því gildi í blóði karlmanna geta gefið vísbendingar um að krabbamein sé þar á forstigi. Með því að mæla PSA endurtekið hjá sama karlmanninum og finna hækkuð gildi sæjust hættumerki um krabbameinsvöxt.

Einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli eru mjög lítil og engin á byrjunarstigi þannig að hægt er að mæla marktæka hækkun á PSA áður en æxlisvöxturinn er þreifanlegur og þannig er hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir: Það er von flutningsmanna að þingsályktun þessi hleypi af stað vitundarvakningu í samfélaginu um það mikla mein sem krabbamein í blöðruhálskirtli er.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan erum við stödd í mánuðinum mars, svokölluðum mottumars. Þetta mál hefur ekki fengist afgreitt eða mælt fyrir því á þingi. Það væri mikill sómi fyrir þingið og forustu þess að sjá til þess að á þessum tíma, í mottumars, mundi þingið afgreiða tillöguna hratt og vel. Þingsályktunartillagan er unnin í samvinnu við landlæknisembættið og okkar helstu sérfræðinga á Landspítalanum þannig að um áherslur í henni verður ekki mikill ágreiningur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)