141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort sem um ræðir 50 milljónir, 200 eða 600 milljónir, hvort sem við tölum um Ríkisútvarpið eða aðrar stofnanir, þá eru þetta allt háar fjárhæðir þegar lítið fé er til skiptanna. Því vil ég taka undir með hv. þingmanni, það skiptir miklu máli að áætlanir standist og að við þeim sé brugðist með viðeigandi hætti, alveg sama hverjir eiga þar í hlut. Við getum þá helst örugglega verið sammála um að grunnþjónustu þarf að sjálfsögðu að standa vörð um, eins og heilbrigðisstofnanir og annað, sem hafa brugðist mjög vel við þeim niðurskurði sem þeim hefur verið gert að standa í.

Mikilvægt er að hafa alveg á hreinu þegar þetta mál er afgreitt að búið er að setja sviga utan um og hafa uppi varnaðarorð varðandi fjármögnun á þeim útgjaldaauka sem þarna er um að ræða. Einsýnt er að ekki verður hægt að auka útgjöld Ríkisútvarpsins nema með því að auka tekjurnar sem á móti koma. Ég fæ ekki séð með góðu móti hvar á að mæta með niðurskurði nema að skera niður hjá stofnunum sem hafa kannski fram að þessu fengið aukningar í staðinn fyrir niðurskurð sem aðrir hafa lent í.

Ég held að menn verði samt að horfa á innihald frumvarpsins og hafa þennan vara á, að erfitt kunni að vera að láta það ganga eftir, allt sem í því er, ef ekki er hægt að finna fjármögnun vegna þessara útgjaldaauka sem hv. þingmaður nefndi hér.