141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Stundum þegar maður hlustar á ræður um áhugavert málefni eins og Ríkisútvarpið langar mann að hlusta meira á viðkomandi ræðumann og segja meira. Það er margt sem ég vil taka undir og það væri einfaldlega fróðlegt að heyra skoðanir hv. þingmanns, m.a. á hlutverki Ríkisútvarpsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem verður hæstv. innan nokkurra vikna, hvort hann sé mér sammála um að eftir standi að í frumvarpinu er hlutverkið enn þá of víðtækt. Eða er hann kannski sammála því að Ríkisútvarpið eigi að geta gert alla skapaða hluti? Eigum við frekar að tala um, eins og hann sagði í öðru samhengi, að forgangsraða hjá Ríkisútvarpinu þannig að við upplifum meiri íslenska dagskrárgerð og að Ríkisútvarpið passi upp á söguna?

Í því samhengi vil ég geta þess, af því að það ánægjulega gerðist í gær að menntamálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að húsi íslenskra fræða, að á verksviði Árnastofnunar og innan hennar hefur Gísli Sigurðsson, að mig minnir, lengi vel einmitt farið um landið og tekið upp. Það er til ómældur menningararfur innan Árnastofnunar á því sviðinu þar sem er verið að geyma þjóðlegan fróðleik og viðtöl við fólk á miðjum aldri og aðeins eldra, nákvæmlega þann hóp sem hv. þingmaður var að tala um. Þess vegna held ég að það væri gaman að leiða bæði Ríkisútvarpið og Árnastofnun hvað þetta varðar því að það er mikilvægt atriði að varðveita þennan menningararf, söguna og upplifun samherja okkar og samlanda.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann um hlutverkið og síðan vil ég eindregið taka undir það sem hann sagði varðandi íslenska tungu, að forgangsraða í þágu íslenskrar tungu. Ég held reyndar að í slíkri forgangsröðun felist einmitt að efla íslenska dagskrárgerð, kaupa meira innlent efni af sjálfstæðum framleiðendum utan úr bæ og efla þannig framleiðslu á íslensku efni. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir með mér og fleiri sjálfstæðismönnum um að auka beri hlut innlendrar dagskrárgerðar og þar með talið sjálfstæðra framleiðenda innan Ríkisútvarpsins.