141. löggjafarþing — 99. fundur,  12. mars 2013.

Ábyrgðasjóður launa.

195. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi án þess að hafa hlotið efnislega umræðu. Tilurð frumvarpsins má rekja til athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA og má því búast við að höfðað verði mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum verði ekki brugðist við athugasemdunum.

Með frumvarpinu er horfið frá því skilyrði að atvinnurekandi þurfi að hafa staðfestu í fleiri en einu ríki til að lög um Ábyrgðasjóð launa taki til krafna vegna þeirra launamanna sem að öllu leyti eða að jafnaði inna af hendi starfsskyldur sínar hér á landi, enda njóti kröfur þeirra ekki ábyrgðar í öðru ríki.

Nefndin ræddi þó nokkuð um orðalagið „viðvarandi starfsemi“ sem notað er í 1. gr. frumvarpsins en það er þýðing, með leyfi forseta, á enska orðasambandinu „a stable economic presence“. Fram kom í nefndinni að ekki væri mögulegt að setja ákveðinn lágmarkstíma sem atvinnurekandi þarf að vera starfandi hér á landi til að kröfur launamanna hans njóti verndar Ábyrgðasjóðs launa heldur er það háð mati hverju sinni hvort atvinnurekandi teljist hafa viðvarandi starfsemi hér á landi eða hvort um sé að ræða tilfallandi, tímabundin verkefni. Tilfallandi verkefni eru verkefni sem einstaka verktakar vinna hér um skamman tíma, en til að hægt sé að tala um viðvarandi starfsemi þarf verkið að teljast í mánuðum eða árum. Hið sama á einnig við til dæmis um starfsmenn hugbúnaðarfyrirtækja og starfsmannaleigna sem vinna varanlega hér á landi, en þeir sem hingað eru sendir tímabundið til að vinna tiltekin verkefni sem taka skamman tíma mundu almennt ekki teljast vera hér vegna viðvarandi starfsemi atvinnurekandans.

Þá þarf einnig að hafa í huga að það er aðeins sú starfsemi sem atvinnurekandi hefur hér á landi sem ræður því hvort hann teljist hafa viðvarandi starfsemi hér á landi eða ekki, en ekki til dæmis skattgreiðslur starfsmanna hans þar sem ýmsar alþjóðlegar skattareglur og tvíhliða skattasamningar ákvarða hvar launafólk greiðir skatta af launum sínum óháð því ríki sem það innir vinnuna af hendi í.

Í 2. gr. frumvarpsins er verið að leggja aukna upplýsingaskyldu á Ábyrgðasjóð launa til stjórnvalda í öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna krafna í bú gjaldþrota atvinnurekenda. Tilgangur ákvæðisins er að tryggja að launafólk fái þær kröfur sínar bættar sem það á rétt á sem og að koma í veg fyrir að sama krafan sé tryggð og greidd í mörgum ríkjum

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og verði það að lögum gerist það þegar í stað og af samþykkt hefur orðið.

Undir nefndarálitið skrifa Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Logi Már Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Birkir Jón Jónsson.

Einar K. Guðfinnsson og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.