141. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2013.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Góðir landsmenn. Þegar ég lít yfir fjögurra ára tímabil forustu okkar jafnaðarmanna í ríkisstjórn get ég verið nokkuð sátt við árangurinn sem við höfum náð. En ég er um leið raunsæ og veit að við eigum enn margt óunnið. Það hefur ekki verið auðvelt að vera stjórnmálamaður og hvað þá jafnaðarmaður á því kjörtímabili sem nú er að líða. Það var erfitt að þurfa að standa frammi fyrir því að skera niður í ríkisútgjöldum, taka sársaukafullar ákvarðanir á þeim vettvangi, erfitt var oft og tíðum að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir um að hækka skatta og álögur. En allt var þetta gert til þess að tryggja að við stöðvuðum skuldasöfnun ríkissjóðs. Núverandi ríkisstjórn hefur tekist að ná þeim árangri.

Góðir landsmenn. Að stöðva skuldasöfnun ríkissjóð var hjartað í okkar efnahagsstefnu vegna þess að það er forsenda þess að hér geti orðið vöxtur í framtíðinni. Það er forsenda þess að við getum bætt lífskjörin. Það er forsenda alls sem framtíðin á að bjóða upp á á Íslandi.

Hér þurfum við þó að gera enn betur og sýna ábyrgð og festu um leið og við forgangsröðum til að standa við nýtt og einfalt almannatryggingakerfi, húsnæðisstyrki sem bæta afkomu fólks, fæðingarorlof í þágu komandi kynslóða, uppbyggingu okkar mikilvægustu heilbrigðisstofnunar með nýjum Landspítala, fjölgun hjúkrunarheimila og átak til að jafna launamun kynjanna.

Góðir landsmenn. Þessi ríkisstjórn hefur mótað atvinnustefnu sem setur hugvit og sköpunarkraft atvinnulífsins sjálfs í forgrunn og styður við stofnun og vöxt fyrirtækja með endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, stóreflingu samkeppnissjóða, lagaramma um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar auk stórátaka á sviði ferðaþjónustunnar sem hefur skilað okkur öflugri þjónustugrein í ferðaiðnaði.

Atvinnustefna hér á landi á að tryggja heilbrigða samkeppni sem er mikilvægt tæki til að tryggja jafnræði, úthluta gæðum með gagnsæjum hætti og vinna gegn spillingu. Að þessu eigum við að vinna og á þessu á öll atvinnustefna að grundvallast.

Við þurfum líka frjálst og skapandi atvinnulíf en til að svo geti orðið þurfum við gjaldmiðil sem virkar í stað þess að hefta. Það er stóra verkefnið á næsta kjörtímabili, að tryggja heimilum og atvinnulífi gjaldmiðil sem virkar.

Við þurfum líka að fara í gegnum skattkerfið eftir það tímabil sem nú er senn á enda, einfalda það og gera það betra þannig að það þjóni atvinnulífinu betur.

Okkar uppvaxandi kynslóðir í alþjóðasamfélaginu líta ekki bara á störf sem leið til að hafa í sig og á. Ungt fólk vill spennandi og krefjandi störf sem veita lífsfyllingu. Þess óskum við öll börnum okkar. Því er svo mikilvægt að standa vörð um sóknarfærin og fjölbreytileikann í atvinnulífinu.

Hinar ríkulegu auðlindir okkar eru hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og meðal þess sem stendur hjarta okkar næst. Okkur er ekki sama hvernig um þær er gengið eða hvernig farið er með auðlindaarð okkar. Þess vegna hefur núverandi ríkisstjórn unnið hörðum höndum að því allt þetta kjörtímabil að koma auðlindum okkar í var og tryggja þjóðinni eðlilega hlutdeild í auðlindaarðinum.

Við jafnaðarmenn stóðum að því árið 2008 að gefnu tilefni að setja lög sem bönnuðu varanlegt framsal orkuauðlinda í eigu ríkis og sveitarfélaga. Í þessari ríkisstjórn höfum við haft forgöngu um að móta í fyrsta sinn orkustefnu fyrir Ísland og heildstæða auðlindastefnu fyrir landið. Markmiðið er að tryggja þjóðinni varanleg yfirráð yfir auðlindum og að auðlindaarðurinn renni til eflingar samfélagsins, uppbyggingar og fjölbreyttara atvinnulífs um allt land.

Við höfum samþykkt rammaáætlun sem á að tryggja sátt um nýtingu orkuauðlinda okkar. Rammaáætlun er einnig mikilvægt tæki til þess að koma náttúruperlunum okkar í var, það hefur okkur tekist á þessu kjörtímabili, öllum okkar helstu náttúruperlum.

Hluti auðlindaarfsins vegna sérleyfa til nýtingar sameiginlegra fiskstofna okkar skilar sér nú einnig til þjóðarinnar í gegnum veiðileyfagjald og nýtist til uppbyggingarverkefna víða um land þegar við þurfum hvað mest á því að halda í kjölfar efnahagslægðar.

Ferskvatn er að verða ein verðmætasta auðlind heimsins og af því eigum við gnótt. Núverandi ríkisstjórn hefur náð á kjörtímabilinu að vinda ofan af afar umdeildri einkavæðingu yfirborðsvatnsins sem samþykkt var árið 2006 af ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Af því er ég afar stolt.

Nú er til meðferðar í þinginu frumvarp ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að tryggja grunnvatnið með sama hætti í almannaeigu. Við höfum því komið vatninu líka í var. Þá er líka mikilvægt að við náum að klára á þessu þingi ný náttúruverndarlög.

Í mínum huga er því afar mikilvægt að Alþingi tryggi til frambúðar það var sem við höfum unnið að að koma auðlindum þjóðarinnar í með því að samþykkja ákvæði um þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá. Við þingmenn eigum að nýta tíma okkar síðustu daga þessa þings til að koma því hjartans máli þjóðarinnar í gegn.

Senn líður að kosningum. Mikilvægt er að varast öll gylliboð. Staðan sem uppi er núna er vissulega mun betri en hún var fyrir fjórum árum, en hún er engu að síður viðkvæm. Við megum ekki við neinum kollsteypum. Við eigum að taka raunsæ skref fram á við með jöfnum og þéttum vexti. Tími kollsteypustjórnmálanna er liðinn. Nú tryggjum við stöðugleikann og höldum áfram að byggja öruggt og gott samfélag.