141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

afskipti innanríkisráðherra af bandarískum lögreglumönnum.

[10:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu, bara í síðustu viku, funduðum við í allsherjar- og menntamálanefnd með lögreglunni í svokölluðu FBI-máli varðandi framkomu ráðherra og það hvernig hann hefur þar gripið inn í sjálfstæði ákæruvaldsins. Við sátum fund með þeim lögreglumönnum sem sátu fundina 25. ágúst árið 2011. Í máli lögreglumannanna kom alveg skýrt fram að aðeins lögreglumennirnir voru boðaðir en einhverra hluta vegna, og það var reyndar mjög sérstakt, sat fulltrúi frá ráðuneytinu þarna. Hann tók niður glósur en sagði ekki orð eða tjáði sig um eitt eða neitt. Það var greinilegt að þar var settur einhvers konar yfirfrakki á lögregluna einhverra hluta vegna á þessum fundi, sem var mjög ankannalegt.

En burt séð frá því var alveg ljóst, og það kom skýrt fram í máli þeirra mætu lögreglumanna sem mættu á fundinn, að það var að þeirra mati algerlega óvefengjanlegt að um sama mál væri að ræða. Ráðherra hafði engar röksemdir eða forsendur til að ákveða að um annað mál væri að ræða því að rannsókn íslensku lögreglunnar hafði verið vísað til Bandaríkjanna þar sem menn þurftu að fara í samstarf m.a. við FBI.

Í öðru lagi, í ljósi þess sem ráðherra hefur sagt að honum hafi algerlega misboðið það að lögreglumenn frá FBI kæmu inn í landið á einhverjum öðrum forsendum að hans mati, hefði maður haldið að hann mundi beita sér fyrir því að þeir færu úr landi tafarlaust. En svo var aldeilis ekki. Ráðherra sagði víst á fundinum að þessir lögreglumenn gætu bara verið áfram í landinu eins og hverjir aðrir túristar. En gott og vel.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra fyrst hann mat það svo að þetta væru tvö aðskilin mál: Af hverju sendi ekki innanríkisráðuneytið eins og venja er og samkvæmt alþjóðasamkomulagi, beiðni og tilvísun til bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að þeir kæmu með aðra réttarbeiðni? (Forseti hringir.) Það var alveg ljóst og óyggjandi að mati lögreglumannanna að það var ráðuneytisins en ekki lögreglunnar að beina því til bandaríska dómsmálaráðuneytisins að koma með aðra réttarbeiðni í þessu efni. Af hverju beitti ráðherra (Forseti hringir.) sér ekki fyrir slíku?