141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, þetta er ekki tæmandi listi yfir þau mál sem bíða afgreiðslu í þinginu. Mörg mál eru enn í nefndum, þar á meðal mál til að laga stöðu lánsveðshópsins sem ég ætla að vona að stjórnarandstaðan fari ekki að stoppa hér eins og allt annað. Ég vil líka nefna rannsókn á lífeyrissjóðunum og lög sem vernda grunnvatnið.

Þessi listi sýnir hins vegar hversu ósvífinn minni hlutinn í þinginu er, hvernig hann móast við samkvæmt dagskipun ofan úr Hádegismóum. (ÓN: Hvers konar dónaskapur er þetta?) Dagskipunin er einfaldlega sú að samþykkja helst ekki neitt og alls ekki mál sem gott samkomulag er um. Þetta hefur verið viðtekin (Gripið fram í.) regla árum saman og við þekkjum alveg hreint hvaðan hún kemur. Og kalli menn það ósvífni verða menn bara að gjöra svo vel og líta í eigin barm. (ÓN: Dónaskapur.) [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn um að gæta hófs í tali.)