141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

skýrsla fjármálaráðherra um hagvöxt og dagskrá fundarins.

[10:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vek athygli virðulegs forseta sem stjórnar fundum Alþingis á því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti því hvað til stæði að gera, hér væri verið að leggja fram þessa dagskrá eins og hún lítur út til að sýna þjóðinni, eins og hv. þingmaður orðar það, að verið væri að stöðva mál með málþófi. Með öðrum orðum á að setja á svið eitthvert leikrit til að halda því svo fram að verið sé að stöðva hin ýmsu góðu mál sem ríkisstjórninni hefur ekki tekist að klára, „góðu málin“, með málþófi.

Gallinn við þessa hugmynd er bara sá að tíminn er útrunninn. Það er ekki einu sinni tími fyrir málþóf svoleiðis að sú leið að reyna að setja á svið málþófsleikrit hér gengur ekki upp. Það er bara ekki tími fyrir slíkt leikrit svo ég hvet virðulegan forseta til að leiðréttar þessar fullyrðingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, enda er dagskráin lögð fram með fulltingi forseta þingsins. (Forseti hringir.) Ég treysti því að virðulegur forseti leiðrétti þessa kenningu um að hér eigi að setja þessi mál á dagskrá eingöngu til að sýna fram á eitthvert ímyndað málþóf (Forseti hringir.) sem er ekki tími fyrir.