141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér kemur til lokaafgreiðslu bálkur um neytendalán og ástæða til að þakka hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra fyrir frumkvæði hans í málinu. Hér er verið að setja mikilvægar skorður við okurlánastarfsemi á almenning í landinu, verið að tryggja rétt fólks til upplýsinga um verðtryggð lán og margvíslegar aðrar framfarir.

Meiri hlutinn mun styðja eina breytingartillögu frá stjórnarandstöðunni, frá hv. þm. Eygló Harðardóttur, töluliði 1 og 2 á þskj. 1209 sem lúta að flýtimeðferð á ágreiningsmálum er snúa að verðtryggingarþætti lána. Að öðru leyti lúta breytingartillögur okkar við þessa umræðu fyrst og fremst að því að neytendur fái aðvörun um hækkanir á kostnaði með tilhlýðilegum fyrirvara og hins vegar að neytendur með verðtryggð lán séu upplýstir um það hvernig lán þeirra mundu þróast miðað við verðbólgu eins og hún hefur verið síðustu (Forseti hringir.) tíu árin.