141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

um fundarstjórn.

[12:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég vil taka aftur sem dæmi breytingartillögu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur þar sem tekið er inn auðlindaákvæði. Það auðlindaákvæði er ekki í samræmi við það sem atkvæði var til dæmis greitt um í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þar er búið að fella út atriði sem snýr að því að ekki megi leigja auðlindir nema gegn fullu gjaldi og komið inn þetta sérkennilega orðalag að kröfu Vinstri grænna um eitthvað sem þeir kalla eðlilegt gjald. Það á áfram að vera leyfilegt að ráðskast með auðlindirnar eftir einhverju hugdettugjaldi sem Vinstri grænum (Gripið fram í.) dettur í hug í staðinn fyrir að hámarka arð af auðlindunum. Svo á ekki einu sinni að ræða það í þinginu.

Það er alveg fráleitt með hvaða hætti stjórnarmeirihlutinn gengur hér fram. Það á að sjálfsögðu að taka stjórnarskrármálið upp á ný í heild sinni og leyfa stjórnarmeirihlutanum að bjarga andlitinu í því máli. Það er enn tími til þess og það væri sómi að því ef hann játaði á sig þau stórkostlegu mistök sem hann hefur gert. Formenn flokka þeirra hafa einfaldlega brugðist í sínu fyrsta starfi sem þeir fengu upp í fangið eftir að hafa verið kjörnir formenn stjórnmálaflokkanna. (Forseti hringir.)