141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er gerður greinarmunur á því sem ég sagði áðan, nýrri tegund eignarréttar, þ.e. þjóðareignarinnar sem er hliðsett og jafngild einkaeignarréttinum. Ríkið getur átt eignir samkvæmt einkaeignarréttarlegum forsendum, Arnarhvol, vatnsréttindi sem núna eru í eigu Landsvirkjunar, sem er 100% í eigu ríkisins. Ríkið getur átt eignir á ríkisjörðum og annað þess háttar. Það er undirorpið einkaeignarréttarlegum skilyrðum. Það er ríkiseignin. Hér er verið að skilgreina þjóðareignina (Gripið fram í.) sem er allt annars eðlis. (PHB: Sem ríkið fer með.) Sem enginn fer með, (PHB: Sem ríkið fer með.) jú, ef hv. þingmaður les síðustu setninguna í 1. mgr. þá segir að handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, þ.e. þingið og ríkisstjórn, fari með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar (Gripið fram í: Þetta er ríkisvæðing.) sem er eigandinn. Þetta er ekki ríkisvæðing, það er verið að skilgreina nýja tegund eignarréttar. Hv. þingmaður, það kann að vera að það þvælist fyrir einhverjum að skilgreina hvað er þjóð en í þessu tilfelli og af því tilefni þvælist það ekki fyrir mér.

Mig langar til að nefna aðeins, vegna þess að hv. þingmaður sagði að 25% væru lágur þátttökuþröskuldur, að hann er það ekki að mati sérfræðinga. Þetta er einn hæsti svona þátttökuþröskuldur sem þó er talinn lýðræðislegur vegna þess að í fræðum um lýðræðislega þátttöku og beint lýðræði telja menn að einna ólýðræðislegast sé annars vegar þegar minni hlutinn ræður niðurstöðu máls og hins vegar þegar menn geta ráðið niðurstöðu máls með því einu að sitja heima. Það telja menn ólýðræðislegast í því öllu. 20–25% þátttaka telst mjög gott.