141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:41]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurningar hans. Ég er sammála þeim breytingum á tillögum sem koma fram í breytingartillöguplaggi hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur. Ég er að sjálfsögðu sammála öllum tillögunum þar sem það eru sömu tillögur og ég er skrifaður fyrir ásamt mörgum öðrum ágætum þingmönnum í heildarplaggi að nýrri stjórnarskrá sem var lagt fram og tekið til umræðu 3. mars síðastliðinn. Ég get ekki verið á móti tillögunum, þó það nú væri. Þetta eru tillögur sem ég afgreiddi út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og engu verið hnikað til í því. Það sem skortir á í þeim tillögum er að þar er ekki sú ítarlega, vandaða og vel fram setta greinargerð sem er auðvitað stór partur og lykilpartur þegar menn ganga frá plaggi sem þessu. Það þarf að vera kjöt á beinunum og allur pakkinn þarf að liggja á borðinu svo hægt sé að afgreiða málið á þeim grunni.

Er hægt að standa að afgreiðslu málsins í heild sinni? Ég hefði viljað, eins og ég nefndi í ræðu minni, að við værum að ræða málið í framhaldi af þeirri umræðu sem fór fram 3. mars. Mér hefði fundist eðlilegt að vilji þingsins hefði komið fram og afstaða til þess hvernig menn voru tilbúnir og væru tilbúnir að afgreiða það mál. Ég hef ekkert legið á þeirri skoðun minni, og hún hefur komið skýrt fram, að afgreiða ætti málið á þann máta.

Varðandi það sem ég nefndi áðan í ræðu minni um að skort hefði á stuðning til að ljúka málinu hef ég ekkert farið í grafgötur með það. Það kom skýrt fram síðast í umræðunni í gær, m.a. í máli innanríkisráðherra, bara svo ég nefni það af því að það er nærtækast. Það er alveg ljóst að komið hafa fram yfirlýsingar frá þingmönnum í stjórnarliði sem eru greinilega ekki tilbúnir að ganga alla þá leið (Forseti hringir.) sem þarf til að ljúka málinu.