141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna sem hefur verið málefnaleg og upplýsandi. Af því hv. þingmaður ræddi um stöðu auðlindamála vil ég fyrir það fyrsta árétta að eitt er eignarhald auðlinda og annað afnotaréttur auðlinda. Þar vil ég skýra á milli vegna þess að hvað mig snertir tel ég að auðlindirnar eigi að vera í eigu almennings eða þjóðarinnar, en hins vegar eigi þjóðin að leita leiða með samstarfi við einkaaðila um að nýta þær auðlindir. Þar er ég alveg skýr. Það getur farið svo að ef nýtingarleyfi eða afnotaleyfi er úthlutað tímabundið skapi sú leiga óbein eignarréttindi á meðan það leyfi varir. Hvernig við viljum að slíkt ákvæði sé orðað er mjög flókið mál og ber að stíga varlega til jarðar. En prinsippið er hreint, þjóðin á auðlindina en leitar leiða til að hámarka afrakstur hennar. Það eigum við að gera við fisk, olíu, jarðvarma, vatnsföll og fleira.

Ég ætlaði að koma hér upp og spyrja hv. þingmann hvort hann sjái leið til að flokkarnir á Alþingi geti sameinast um orðalag á þingsályktunartillögu þeirri sem hefur sömuleiðis verið til umræðu. Hvernig þingflokkarnir geti allir tryggt áframhald þeirrar vinnu sem hefur átt sér stað á sviði stjórnarskrármálsins. Ég veit að við hv. þingmenn greinir eilítið á um hvað hefur gerst hingað til en spurningin er hvort við getum við fundið leiðina saman til frambúðar. (Forseti hringir.)