141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[12:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Nú deili ég skoðunum með hv. þingmanni að einhverju leyti um að við séum hér með allt of stórt og flókið mál. Ég kallaði ítrekað eftir því á þessu kjörtímabili að fram kæmi tímasett áætlun um það hvernig stjórnarflokkarnir ætluðu sér að fara með þessar stjórnarskrárbreytingar inn í þingið. Ég byrjaði á því í forsætisnefnd fyrir um tveimur árum vegna þess að ég sá það þegar að menn mundu varla ná þessu í tíma.

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn minntist á hvað annað ætti að gera og hver væri leiðin út úr þessari stöðu. Hún væri sú að taka málið af dagskrá og setja það aftur á dagskrá nýs þings. Hvernig telur hv. þingmaður að nýtt þing muni fara með þetta mál? Hver er tillaga þingmannsins um það? Telur hv. þingmaður að nauðsynlegt sé fyrir nýtt þing að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni eða vísar þingmaðurinn til þess að einhverjir afmarkaðir þættir stjórnarskrárinnar verði þar undir? Telur hv. þingmaður að nauðsynlegt sé að endurskrifa stjórnarskrána að öllu leyti eins og er í rauninni gert í þeirri breytingartillögu við frumvarpið sem við ræðum hér?

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni vegna þess að við lifum ekki í neinu tómarúmi, það eru að koma kosningar og stefna flokkanna þarf að vera skýr. Fólk þarf að vita fyrir hvað þeir standa og hvað þeir ætla sér í stjórnarskrármálinu. Ég tel einfaldlega að það sé best að við séum með þetta á hreinu og við getum talað um hlutina eins og þeir eru, svart á hvítu. Hvað er það sem Framsóknarflokkurinn ætlar sér að gera?